*

mánudagur, 27. janúar 2020
Innlent 30. október 2017 15:15

CCP segja upp tugum starfsmanna

Breyttar áherslur tölvuleikjafyrirtækisins hafa áhrif á um 100 starfsmenn, þar af 30 hér á landi. Starfstöðinni í Atlanta verður lokað.

Ritstjórn

Íslenski tölvuleikjaframleiðandinn CCP, sem gefur meðal annars út EVE Online tölvuleikinn, hefur boðað til starfsmannafundar í höfuðstöðvum fyrirtækisins við Grandagarð nú síðdegis, en þar verður tilkynnt um víðtækar breytingar í starfsemi fyrirtækisins.

Ástæðan eru hópuppsagnir hjá fyrirtækinu í dag, en tugum starfsmanna hefur verið sagt upp að því er RÚV segir frá. Eru starfsmennirnir 100 sem uppsagnirnar hafa áhrif á hvort tveggja í starfstöðvum fyrirtækisins erlendis sem og hérna heima á Íslandi en þær hafa áhrif á 30 starfsmenn hér á landi. Sumum starfsmannanna verður þó boðið að færa sig um set innan fyrirtækisins.

Hyggst fyrirtækið setja á ís næstu tvö til þrjú árin frekari þróun leikja í sýndarveruleika, en fyrirtækið hefur meðal annars gefið út leikina Valkyrie, Gunjack og Sparc fyrir þann geira sem Hilmar Veigar Pétursson forstjóri fyrirtækisins segir vera í toppsætum þess geira að því er mbl greinir frá.

„Þetta hefur gengið rosalega vel, en nú sjáum við fyrir okkur ákveðna ládeyðu á þessum markaði næstu 2-3 árin,“ segir Hilmar Veigar sem samt segist hafa trú á þessum heimi til langs tíma. „Við ætlum að einbeita okkur betur að PC leikjum og farsímaleikjum.“

Samhliða áherslubreytingunum verða skipulagsbreytingar sem fela í sér að starfstöð fyrirtækisins í Atlanta í Bandaríkjunum verður lokað, en starfstöðin í Sjanghæ í Kína mun héðan í frá einbeita sér að stuðningi við spilara en ekki lengur vera í leikjaþróun.
Jafnframt verður eining félagsins í Newcastle í Englandi seld, en þess utan er félagið með starfstöð í London.

Stikkorð: hópuppsagnir CCP EVE Online