Tölvuleikjaframleiðandinn CCP skilaði ríflega 560 milljóna króna hagnaði í fyrra, ef miðað er við gengi Bandaríkjadals í dag, en fyrirtækið gerir upp í dölum. Hagnaðurinn var s.s. rúmar 4,7 milljónir dala í fyrra, en árið 2011 var hagnaðurinn tæpar 8,7 milljónir dala. Hærri rannsóknar- og þróunarkostnaður skýrir muninn að mestu.

Velta fyrirtækisins jókst eilítið á árinu og nam 65,3 milljónum dala eða um 7,7 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður jókst um 0,8 milljónir dala milli ára. Rekstrarkostnaðurinn jókst töluvert umfram veltu og fór úr 51,8 milljónum dala í 57,6 milljónir. Vegur þar þyngst að kostnaður við rannsóknir og þróun fór úr tæpum þrettán milljónum dala í 16,5 milljónir. Skýrist það af því að í fyrra var töluverð áhersla lögð á að klára skotleikinn DUST 514, sem kominn er í opna beta prófun á PlayStation netinu.

Eignir félagsins jukust úr 85,5 milljónum dala í 98,8 milljónir á árinu. Sem fyrr er eignfærður þróunarkostnaður veigamestur á þessum hlið efnahagsreikningsins en hann nam um síðustu áramót 88 milljónum dala en var ári fyrr 74,8 milljónir. Skuldir félagsins jukust úr 38,1 milljón dala í 61,7 milljónir á árinu, en það skýrist að stærstum hluta af 20 milljóna dala skuldabréfaútgáfu sem fyrirtækið fór í á árinu.

Önnur stór breyting sem varð á árinu er að handbært fé fyrirtækisins í árslok var mun meira en það hefur verið undanfarin ár. Í árslok 2012 nam það 20,4 milljónum dala, en ári fyrr nam það 3,6 milljónum dala.