Tölvuleikjafyrirtækið CCP tapaði 21,3 milljónum dala í fyrra, jafnvirði 2.386 milljóna íslenskra króna. Til samanburðar nam hagnaður fyrirtækisins 4,6 milljónum dala árið 2012. Fram kemur í uppgjöri CCP að tapið er til komið vegna aukinna afskrifta og niðurfærslu óefnislegum eignum. Niðurfærslan hafi ekki áhrif á fjárstreymi félagsins.

Tekjur CCP námu 76,7 milljónum Bandaríkjadala miðað við 65,3 milljónir dala árið 2012 og jafngildir það 17,5% aukningu á milli ára. Rekstrarhagnaður (EBITDA) nam 19,8 milljónum Bandaríkjadala í fyrra og var það 20,5% hækkun á milli ára. Hagnaðurinn nam 16,4 milljónum dala árið 2012. Framlegð nam 69,8 milljónum Bandaríkjadala miðað við 60,5 milljónir dala árið áður, sem er aukning um 15,5%. Gjaldfærður rannsóknar- og þróunarkostnaður jókst um 40 milljónir Bandaríkjadala vegna verulegrar aukningar í afskriftum auk niðurfærslu á eignfærðum þróunarkostnaði frá fyrri tímabilum.

Í uppgjörinu segir að niðurfærslan, sem nemur 21,5 milljónum dala án skattaáhrifa, eigi sinn þátt í því að fyrirtækið hafi skilað tapi. Þetta er jafnframt liður í endurskoðun á þróunarferlum og áætlunum félagsins fyrir næstu ár.