Leikjafyrirtækið CCP skilaði 22,7 milljóna dala tapi á fyrri hluta ársins. Þetta jafngildir tæplega 2,7 milljarða króna tapi. Á sama tíma í fyrra nam hagnaður fyrirtækisins 318.500 dölum eða sem nemur 37 milljónum íslenskra króna. Tapið skýrist öðru fremur af afskriftum og niðurfærslum á óefnislegum eignum, þ.e. eignfærður þróunar- og rannsóknarkostnaður. Afskriftirnar námu 32,7 milljónum dala á fyrstu sex mánuðum ársins. Í uppgjöri CCP segir að sú ákvörðun að hætta með fjölspilunarleikinn World of Darkness hafi haft í för með sér töluverðan kostnað að auki vegna uppsagnarákvæða.

Fram kemur í uppgjöri CCP að tekjur fyrirtækisins námu 36,5 milljónum dala á tímabilinu sem er sambærilegt við tekjurnar á sama tíma í fyrra þegar þær námu 36,7 milljónum dala. Þá nam framlegð á tímabilinu 33,3 milljónum dala sem er 1,8% lækkun frá í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrirtækisins nam 4,5 milljónum dala. Það er tæplega helmingi minna en á sama tíma í fyrra þegar hann nam 8,3 milljónum dala.

Í uppgjörstilkynningu er haft eftir Hilmar Veigari Péturssyni, framkvæmdastjóra CCP, að stöðugar tekjur og framlegð félagsins á milli ára sýni að kjarnastarfsemi fyrirtækisins, útgáfa og þróun á tölvuleiknum EVE Online, er áfram sterk. Það hafi verið erfitt í apríl að taka ákvörðun um að hætta þróun á tölvuleiknum World of Darkness og einbeita sér að því að þróa leiki fyrir EVE leikjaveröldina.