Tölvuleikjafyritækið CCP auglýsir nú 26 lausar stöður í Reykjavík á vefsíðu sinni sem áætlað er að ráða í á næstu þremur mánuðum. Þar af eru mörg sérhæfð störf við hönnun tölvuleikja og forritun. Gert er ráð fyrir að CCP ráði 60 nýja starfsmenn hér á landi á þessu ári, samkvæmt upplýsingum frá Hólmfríði E.A. Gunnarsdóttur sem vinnur við ráðningar hjá CCP.

"Við höfum þegar ráðið 15 nýja starfsmenn hér á landi á árinu og stefnum á að ráða 45 til viðbótar," segir Hólmfríður. Störfin tengjast öll leikjunum þremur sem CCP vinnur nú að. Það er áskriftarleikur EVE-online, sem fyrirtækið var stofnað um, og síðan leikirnir World of Darkness og Dust 514. "Það eru margvísleg störf sem þarf að ráða í. Þar á meðal á sviði forritunar og hönnunar," segir Hólmfríður. Störf eru auglýst fyrir þrjá mánuði í senn á vef CCP.

Í heild eru starfsmenn CCP nú 474 á starfsstöðvum félagsins í Reykjavík, Atlanta í Bandaríkjunum, Newcastle í Englandi og í Kína. Gert er ráð fyrir að ráðið verði í 150 störf til viðbótar við þau 52 störf sem þegar hefur verið ráðið í á þessu ári. Heildarstarfsmannafjöldi CCP í lok árs verður því um 620 þegar allt er talið.