Hótelkeðjan CenterHotel hefur verið dæmd til að greiða fasteignafélaginu Reitum 204 milljónir króna samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

Reitir höfðuðu mál á hendur hótelkeðjunni sökum meintra vanskila í tengslum við framkvæmdir við Aðalstræti 4-8, þar sem eitt af hótelum keðjunnar er til húsa, og kröfðust 200 milljóna króna auk dráttarvaxta. Reitir stóðu straum af kostnaði við framkvæmdirnar en deilt var um það fyrir dómi hvort hótelkeðjan þyrfti að greiða þá skuld.

CenterHotel nýttu sér forkaupsrétt á og keyptu stærstan hluta Aðalstrætis 6 og 8 á 2.465 millj­ónir í október árið 2016. Að mati dómsins fór þá hótelkeðjan úr stöðu leigjanda yfir í stöðu eiganda og mun því þurfa að standa straum af kostnaði við endurbæturnar líkt og samningurinn gerði ráð fyrir. Önnur túlkun væri og of íþyngjandi fyrir stefnandann, Reiti.

CenterHotel-keðjan rekur sex hótel á höfuðborgarsvæðinu en það eru Plaza hótel, Skjaldbreið, Klöpp, Arnarhvoll, Þingholt og Miðgarður, unnið er að byggingu tveggja nýrra hótela.