Leið bandaríska álfyrirtækisins Century Aluminium[ CENX ], móðurfélag Norðuráls, liggur á Aðallista Kauphallarinnar, að sögn forstjóra Kauphallarinnar, af First North markaðnum, sem er hliðarmarkaður fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Tímasetning breytingarinnar liggur ekki fyrir en vonast er til að það verði innan tíðar. Álfyrirtækið var skráð á First North fyrir rúmu ári en það er einnig skráð á NASDAQ markaðinn í Bandaríkjunum.

Century Aluminium vakti athygli greiningardeildar Kaupþings og fjölmiðla á mánudaginn þegar markaðsvirði fyrirtækisins varð þriðja mesta í Kauphöllinni. Skákaði þar með Glitni. Kaupþing er stærsta félagið í Kauphöllinni og Landsbankinn kemur þar á eftir. Gengi álfyrirtækisins hefur tekið stórt stökk það sem af er ári, hefur hækkað um 55%. Á sama tíma hefur Glitnir lækkað um 25%. Við lok markaðar í gær var Glitnir hinsvegar aftur búinn að hreppa þriðja sætið í kjölfar 6% lækkun álfyrirtækisins, samkvæmt upplýsingum Markaðsvaktar Mentis.

Þrátt fyrir stærð fyrirtækisins - markaðsvirði þess er um 217 milljarðar króna - var ákveðið að skrá það á First North. En þar voru fyrir Hampiðjan sem metið er á 2,5 milljarða á markaði og HB Grandi sem metið er á 17 milljarða króna.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, segir að það hafi verið einfaldara að skrá félagið fyrst á First North því það voru ákveðin atriði sem varða flöggunarreglur og yfirtökureglur sem ekki er að búið að leysa sem stóðu í vegi fyrir skráningu á Aðallistann. Hann segir að unnið sé að því að leysa þessi atriði. Vonast er til að úrlausn finnist innan tíðar. Þegar búið verður að leysa úr þeim verður einfalt og skilvirkt að skrá félög sem eru á skráð í Bandaríkjunum einnig á íslenska aðalmarkaðinn. Mikilvægt er fyrir þau félög að geta speglað upplýsingarnar á millimarkaði svo ekki sé um tvíverknað að ræða.

Nokkrir þættir skýra gengisþróun álfyrirtækisins, að mati greiningardeildar Kaupþings. "Century hefur í fyrsta lagi notið góðs af mikilli hækkun á heimsmarkaðsverði á áli en álverð hækkaði um fimmtung á skömmum tíma snemma á árinu. Eitt tonn af áli til afhendingar eftir þrjá mánuði fór í dag upp í 3.140 Bandaríkjadali og stendur í þriggja mánaða hámarki. Þá skilar gengisveiking krónunnar gagnvart Bandaríkjadal sér í auknu markaðsverðmæti Century í krónum talið. Í þriðja lagi hefur markaðsverðmæti viðskiptabankanna þriggja lækkað töluvert það sem af er ári," segir greiningardeildin