Í nýrri greiningu vefsíðunnar Seeking Alpha er Century Aluminum, móðurfyrirtæki Norðuráls, spáð miklum erfiðleikum og í versta falli gjaldþroti.

Seeking Alpha dregur þessa ályktun út frá því að gróði fyrirtækisins frá 2014 inn í 2015 hafi verið vegna sérstakrar Midwest álagningar, sem á að hafa hækkað óvenjulega mikið í þetta eina skipti og sé ekki breyta til langs tíma sem má reiða sig á í verðmati á fyrirtækinu.

Álverð er ákvarðað út frá tveimur meginbreytum. Í fyrsta lagi er markaðsverð á álinu sjálfu metið út frá gangandi LME (London Metals Exchange) verði. LME verð er eðlilega ráðið út frá framboði og eftirspurn fyrir áli að hverju sinni. Í öðru lagi er ákveðin svæðisálagning sett ofan á markaðsverðið. Í Bandaríkjunum er þessi álagning kölluð Midwest premium (MWP). Hún er byggð á gjaldinu sem kaupandi greiðir álframleiðandanum fyrir kostnað flutninga og geymslu.

Vegna klaufsku í reglugerðum hækkaði Midwest álagningin um rúm 500%, og á þessi óvenjulega hækkun að hafa verið valdurinn að miklum gróða Century Aluminum í Bandaríkjunum á síðasta ári. Að lokum varð það svo að LME breytti reglum um lágmarkskvóta sem kemur í veg fyrir slíkar hækkanir í framtíðinni. Nú þegar það er úr sögunni vill Seeking Alpha meina að framtíðarhagnaður Century sé ekki endurspeglaður réttilega í hlutabréfaverði fyrirtækisins.

Lækkandi gróði og reiðufé á þrotum

Century hefur gert sitt besta að lækka framleiðslukostnað en þrátt fyrir það bíða þeirra mögulega erfiðir tímar. Árlegt EBITDA fyrirtækisins stendur nú í -250 milljónum dala, og ráðstöfun reiðufjár stendur í 300 milljónum dala. Það lítur því út fyrir að eftirstandandi reiðufé verði uppurið á næstu tveimur ársfjórðungum, sem þýðir að Century þyrfti endurfjármögnun og mögulega endurskipulagningu.

Einnig er möguleiki á því að álverð lækki enn meira, eða um einhver 10% á næsta ári ofan á þau 10% sem verðið hefur lækkað um í ár, eins og greinendur gera ráð fyrir. Verði svo mun þessi áætlun tveggja ársfjórðunga verða einhverju styttri er EBITDA Century verður lægra.