Century Aluminum í Kentucky í Bandaríkjunum, sem er dótturfélag Century Aluminum Company sem á m.a. Norðurál í Hvalfirði, mistókst fyrir síðustu mánaðamót að knýja fram lækkun á langtíma orkuverði fyrir álver sitt í Hawesville í Kentucky. Núgildandi samningar renna út í árslok 2010.   Tilraunir höfðu þá staðið yfir um hríð til að vinda ofan af raforkusamningum við Big Rivers og Western Kentucky Energy (WKE). Var ætlun Century að ná fram orkuverði á því sem þeir kalla viðráðanlegt verð til langs tíma, en Rio Tinto Alcan hefur einnig tekið þátt í þeim viðræðum.   Century hefur rekið stórt álver í Hawesville sem framleitt getur 250.000 tonn af áli í 5 kerasamstæðum. Vegna efnahagshrunsins á heimsvísu og lækkun á álverði var ákveðið að loka einni kerasamstæðu álversins í mars.   Álverið fær nú orku sína frá Kenergy Corp. sem er hluti af Big Rivers kerfinu. Er orkan seld til fyrirtækisins samkvæmt afhendingarsamningi á milli Big Rivers og WKE. Þessi samningur rennur út í árslok 2010.   Map Powel verksmiðjustjóri Century í Hawesville segir á heimasíðu félagsins að fyrirliggjandi raforkusamningur geti komið fyrirtækinu í fjárhagsleg vandræði. Eftir margra vikna samningaviðræður hafi ekki tekist að minnka þá áhættu. Þó verði áfram reynt að tryggja langtíma orkusamning sem fullnægi langtímahagsmunum fyrirtækisins.