Century Aluminum skilaði inn uppgjöri fyrir þriðja fjórðung í gærkvöldi. Afkoma félagsins var í meginatriðum í samræmi við væntingar greinenda, en nettó tekjur á fjórðungnum voru 37 milljónir dollara samanborið við 7,5 milljónir á sama tímabili í fyrra.

Sé litið fram hjá einskiptishagnaði vegna skatta og einskiptiskostnaðar vegna niðurfærslu vegna rýrnandi markaðsvirðis ýmissa gerninga á bókum félagisins nam hagnaður félagsins 84 milljónum dollara á fjórðungnum. Söluaukning nam 20% og var 552 milljónir. Meðalspá greinenda samkvæmt Reuters var 549 milljónir.

Í uppgjöri félagins fyrir fjórðunginn kemur fram að vel sé fylgst með framvindu mála í Helguvík. Century Aluminum rekur á álver á Íslandi og í Bandaríkjunum, og á auk þess báxítnámur í Bandaríkjunum og á Jamaíka.