Kanadíska álfyrirtækið Century Aluminum tapaði 3,9 milljónum dala, jafnvirði rétt tæplega hálfum milljarði króna, á fyrstu þremur mánuðum ársins. Til samanburðar hagnaðist fyrirtækið um 25 milljónir dala á sama tíma í fyrra. Century Aluminum er móðurfélag Norðuráls, sem rekur álverið á Grundartanga.

Mestu munar um neikvæð áhrif af framvirkum samningum um kaup á áli.

Fram kemur í uppgjöri fyrirtækisins að tekjur námu 326,2 milljónum dala á tímabilinu sem er nær óbreytt á milli ára.

Í tilkynningu er haft eftir Michael A. Bless, forstjóra Century Aluminum, að hægt hafi á eftirspurn á áli víða um heim, ekki síst í Evrópu og sé hræðsla við að binda sig með langtímasamningum. Þá segir hann álverð of hátt

Enn rætt um Helguvík

Forstjóri Century Aluminum segir ennfremur að framleiðsla á áli hafi verið góð á Grundartanga, sérstaklega í skugga rafmagnsleysis í byrjun árs. Þá segir hann viðræður um byggingu álvers í Helguvík á viðkvæmu stigi. Ákvörðun kunni að liggja fyrir um næstu skref þar á næstu mánuðum.