Century Aluminum hagnaðist um 112,5 milljónir dollara á fjórða ársfjórðungi 2014 samanborið við 40,3 milljóna dollara tap á rekstri félagsins árið áður.

Á fjárfestafundi í tengslum við uppgjörið var Michael A. Bless, forstjóri fyrirtækisins, spurður að því af hverju ekki hefði verið minnst sérstaklega á fyrirhugaða uppbyggingu álvers í Helguvík við kynningu uppgjörsins.

„Við minntumst ekkert sérstaklega á það vegna þess að við vildum forðast uppfyllingarefni í kynningunni, en við hefðum eflaust átt að gera það. Við erum enn einbeitt að verkefninu og erum enn í viðræðum við alla hluteigandi aðila. Það hafa verið miklar umræður og einhver þróun í málinu en ekkert sem gefur tilefni til þess að minnast sérstaklega á það eins og staðan er í dag.“ sagði Bless.