Century Aluminum Company, móðurfélag Norðuráls sem nýverið var skráð í Kauphöll Íslands, hefur undirritað viljayfirlýsingu við fjárfestingarfyrirtækið Guangxi Investment Group (GIG) um að framkvæma hagkvæmnirannsókn vegna álframleiðslu og tengdrar súráls- og báxítvinnslu í Kína, segir í frétt Market Wire.

Verkefnið er staðsett í Laibin í sjálfsstjórnarhéraðinu Guangxi Zhuang, sem er það svæði í Kína sem er hvað ríkast af báxíti. Í verkefninu er innifalinn 500 þúsund tonna bræðsluofn sem yrði byggður í tveimur áföngum. Bræðsluofninn myndi leggja til ál í framleiðslueiningu sem GIG er nú að þróa sem framleiðir málmblöndur og íhluti fyrir flugiðnað.

Logan W. Kruger, forstjóri Century, segist vera ánægður með samvinnuna með Guangxi Group. "Við sjáum mikla möguleika á þessu svæði í Kína og hlökkum til að skoða þetta verkefni sem myndi hagnast báðum aðilum," segir Kruger.

Aðalframleiðsla Century er í Bandaríkjunum og á Íslandi, en fyrirtækið hefur einnig lýst yfir áhuga á súráls- og báxítfjárfestingum í Bandaríkjunum og á Jamaíka.

Century Aluminum er skráð á bandaríska Nasdaq markaðinn og er fyrsta skráða fyrirtækið í Bandaríkjunum, sem skráð er á Íslandi. Áætlað er að nota meginhluta af afrakstri útboðsins til að fjármagna fyrirhugaða byggingu álvers í Helguvík. Reiknað er með að framkvæmdir geti hafist þar í byrjun næsta árs. Áður en fyrirhugaðar framkvæmdir hefjast í Helguvík verður andvirðið notað í áhættulitlar fjárfestingar og til að greiða niður skuldir, segir í tilkynningu.