Hátískufyrirtækið Chanel hyggst segja upp 200 starfsmönnum, að sögn breska blaðsins Telegraph.

Fyrirtækið stendur nú frammi fyrir minnkandi eftirspurn og bregst við með þessum hætti. Veldur þetta áhyggjum þess efnis að hátískubransinn sé orðinn enn eitt fórnarlamba fjármálakreppunnar, en sá iðnaður hefur í gegnum tíðina verið fremur ósnortinn gagnvart sveiflum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Fyrirtæki sem selja lúxusvörur eru nú þegar orðin vör við efnahagsástandið. Í síðustu viku hætti franska félagið LVMH, sem selur m.a. Vuitton og Givenchy, við plön um að opna 12 hæða verslun í Tókýó.

Heildarsala á lúxusvörum í Bandaríkjunum - og þá eru lúxusvörur skilgreindar sem dýrustu skartgripir, föt og leðurvörur á markaðnum - hefur nú dregist saman um rúm 3% samkvæmt gögnum frá SpendingPulse, sem er deild innan Mastercard og sérhæfir sig m.a. í að skoða kreditkortaveltu.