Franska tímaritið Charlie Hebdo kom út í dag í fyrsta skipti frá því að árás var gerð á ritstjórnarskrifstofur blaðsins í París í síðustu viku.

Eftir árásina tilkynnti ritstjórnin að engan bilbug væri að finna á henni þrátt fyrir árásina og útgáfa myndi halda áfram. Venjulegt upplag telur 60 þúsund eintök, en ritstjórnin gaf það fljótlega út að gefin yrðu út milljón eintök.

Sú tala hefur nú breyst tvisvar í ljósi gífurlegrar eftirspurnar. Prentunin var aukin í þrjár milljónir eintaka í gær, en í dag var svo tekin ákvörðun að prenta tvær milljónir eintaka í viðbót. Telja þau því samtals fimm milljónir.

Ekkert lát er á eftirspurninni og hafa eintök nýjasta tölublaðsins gengið kaupum og sölum á internetinu; meðal annars á sölusíðunni eBay . Þar hafa eintökin verið verðlögð á allt frá 60 dölum og upp í 600 dali, eða tæpar 80 þúsund krónur.

Er því kannski ekki útilokað að ritstjórnin taki aftur ákvörðun um að prenta fleiri eintök.