Richard Malka, lögmaður Charlie Hebdo, hefur staðfest að blaðið muni koma út í næstu viku. Eintökin verða þó ekki 60 þúsund, líkt og venjulegt er, heldur milljón talsins. Þetta kemur fram á vef BBC News .

Þar segir einnig að bræðurnir tveir, sem grunaðir eru um árásina á ritstjórnarskrifstofur Charlie Hebdo í París í gærmorgun, séu taldir hafa rænt bensínstöð í norðanverðu Frakklandi í dag. Þar hafi þeir stolið mat og bensíni, en óttast er að þeir stefni nú aftur á höfuðborgina og undirbúi aðra árás.

Þeir eru sagðir stefna í átt að borginni í Renault Clio bifreið sem þeir eiga að hafa rænt skömmu eftir árásina í gær. Lögreglan hefur lokað vegum í átt að höfuðborginni, en þúsundir lögreglumanna hafa tekið þátt í leitinni að bræðrunum tveimur síðasta sólarhring.