Annað kvöld ræðst það hvort liðið er sterkast í Evrópu þegar Manchester United og  Chelsea mætast á Luzhniki leikvanginum í Moskvu í úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Félögin eru þannig bæði í góðum málum hvað fótboltann áhrærir en allt öðru máli gegnir um fjármálin. Samkvæmt reikningum félaganna skulda þau samtals um 1,5 milljarð punda, um 63 milljarða ÍSK.

„Reikningar Chelsea sýna að stærsti lánadrottinn félagsins er sjálfur eigandinn, Roman Abramovich,” segir í grein eftir David Conn blaðamann Guardian.

„Hann hefur lagt fram 578 milljónir punda inn í félagið, ekki sem styrk heldur sem vaxtalaust lán. Það var því alveg rétt sem stjórnarformaður Chelsea, Peter Kenyon, lét hafa eftir sér í febrúar, að Chelsea ætti engar útistandandi skulir við nokkurn einasta banka,” segir í greininni.