Nýr Chevrolet Volt og endurhannaður Ford Explorer voru útnefndir bílar ársins 2011 í Bandaríkjunum af dómnefnd 49 bílablaðamanna í dag að því er fram kemur í The Detroit News.

Volt sem útnefndur var fólksbíll ársins í valinu um „North American Car and Truck of the Year”, var fyrst kynntur til sögunnar í Detroit fyrir þrem árum. Nýi bíllinn getur ekið 40 til 80 kílómetra á rafhleðslunni áður en bensínvél sem sér um að framleiða rafmagn fyrir mótorinn fer í gang. Við fulla hleðslu á rafgeymum og bensíngeymum getur Chevrolet Volt ekið allt að 610 kílómetra.

Ford Explorer var valinn í flokknum „Truck of the year” (jeppar og pallbílar) og kemur nú gjörbreyttur í útliti með 3,5 lítra og 290 hestafla V-6 vél undir húddinu. Hann er m.a. útbúinn um landslagsaðstæðna-stjórnkerfi. Gefur það ökumanni möguleika á að velja kerfi þar sem tölva samræmir bensíngjöf og snúningshraða út í hjól miðað við aðstæður.

Aðrir bílar sem kepptu til úrslita um val á fólksbíl ársins voru 2011 módelin af Hyundai Sonata og Nissan Leaf rafbílnum. Sonatan er bæði í boði sem bensín og tvinnbíll. Þá komust 2011 módelin af Dodge Durango og Jeep Grand Cherokee jeppunum einnig í úrslit í sínum flokki. Deloitte & Touche LLP í Detroit hafði umsjón með kjörinu.