Chile og Noregur hafa vísað þeirri ákvörðun Evrópusambandsins að beita verndarráðstöfunum gegn innflutningi á eldislaxi til Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Samkvæmt samningi WTO um lausn deilumála skal í fyrstu leitast við að leysa úr deilumálum af þessu tagi með viðræðum milli deiluaðila. Leiði slíkar viðræður ekki til þess að lausn finnist
á málinu kann því að verða skotið til kærunefndar. Þar sem verndarráðstafanir ESB taka einnig til útflutnings á eldislaxi fráÍslandi munu íslensk stjórnvöld fylgjast grannt með meðferð málsins hjá WTO segir í Stiklum, vefriti viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

Hin umdeilda ákvörðun var tekin af framkvæmdastjórn ESB og samkvæmt henni eiga verndaraðgerðirnar að gilda til 15. ágúst 2008. Gerir ákvörðunin ráð fyrir að þeim löndum sem flutt hafa eldislax til Evrópusambandsins verði úthlutað innflutningskvótum í hlutfalli við útflutning síðustu ára og mun Ísland deila innflutningskvóta með Rússlandi, Kanada og Bandaríkjunum.
Hugsanlegt er að eitthvert aðildarríki ákveði að skjóta ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar til ráðherraráðs ESB en þá hefur
ráðherraráðið þrjá mánuði til þess að samþykkja ákvörðunina
með auknum meirihluta.

Reynist ekki nægur meirihluti fyrir ákvörðuninni eða afgreiði ráðherraráðið ekki málið innan tilskilins tímafrest falla aðgerðir ESB sjálfkrafa úr gildi. Sú var raunin með þá ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá því í ágúst 2004 að grípa til bráðabirgðaverndaraðgerða gegn innflutningi á eldislaxi, en þær aðgerðir féllu úr gildi í desember 2004 þar eð ákvörðun reyndist ekki hafa nægjan hljómgrunn í ráðherraráðinu.

Byggt á Stiklum, vefriti utanríkisráðuneytisins.