Kínverski álrisinn Chinalco hefur ákveðið að auka hlut sinn í ástralska álrisanum Rio Tinto með því að kaupa hlut í félaginu að andvirði 12,3 milljarða dala auk þess sem Chinalco mun kaupa 7,2 milljarða dala skuldabréf af félaginu.

Fréttastofa Reuters greinir frá því að með þessu hætti muni Rio Tinto styrkja stöðu sína auk þess að auka lausfé með útgáfu á skuldabréfinu. Reuters hefur þetta eftir nafnlausum heimildarmanni.

Með þessum kaupum eykur Chinalco hlut sinn í Rio Tinto, sem skráð er bæði í Ástralíu og í Lundúnum, úr 9% í 18%.

Áströlsk yfirvöld munu þurfa að samþykkja eignarhald Chinalco í félaginu en þar gilda sérstakar reglur um eignarhald erlendra fyrirtækja sem fer yfir 10% í áströlskum félögum.