Chinalco, stærsti álframleiðandi í Kína, sem keypti 9% eignahlut í Rio Tinto í samvinnu við bandaríska álfyrirtækið Alcoa, er í viðræðum við samstarfsaðila sinn um að kaupa hugsanlega stærri hlut í Rio Tinto. Á síðasta ári keypti Rio Tinto kanadíska álfélagið Alcan, sem meðal annars rekur álverið í Straumsvík. Alcoa á hins vegar og rekur Alcoa Fjarðarál á Reyðarfyrði.

"Við eigum í viðræðum við Alcoa um að auka hlut okkar í Rio Tinto", sagði Xia Yaqing, stjórnarformaður Chinalco, við fjölmiðla í Shanghai í dag, en Chinalco og Alcoa fjárfestu í Rio Tinto í febrúarmánuði fyrir 14 milljarða Bandaríkjadala. Hann bætti því við "að ef verðið sé hagstætt, þá gætum við aukið hlut okkar. Þetta verður ekki síðasta fjárfesting okkar á erlendum mörkuðum".

Sérfræðingar segja að aukinn eignarhlutur Chinalco og Alcoa gæti hindrað áform BHP Billiton, sem hefur lagt fram 133 milljarða dala yfirtökutilboð í Rio Tinto, þriðja stærsta námufyrirtæki heims.