Bananaframleiðandinn Chiquite hefur hafnað tilboði brasilísku félaganna Cutrala og Safra um yfirtöku. Í staðinn mun fyrirtækið halda upphaflegri áætlun um að sameinast evrópska ávaxtaframleiðandanum Fyffes.

Eins og VB.is greindi frá bauðst Chiquita á dögunum tilboð um yfirtöku frá tveimur brasilískum félögum en þetta var annað slíkt tilboð sem fyrirtækinu baust á árinu en því hafði einnig boðist að sameinast Fyffes.

Talsmenn Chiquita segja boð brasilísku félaganna ekki vera nógu gott og hafa því hafnað boðinu. En tilboðið hafði numið 611 milljónum Bandaríkjadala, eða rúmum 70 milljörðum íslenskra króna.

Samruni Chiquita og Fyffes mun skapa stærsta bananafyrirtæki heims, með árstekjur sem nema 4,6 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur rúmum 500 milljörðum íslenskra króna. Chiquita mun forðast háan bandarískan fyrirtækjaskatt með því að flytja höfuðstöðvar sínar til Írlands.

Mörg önnur fyrirtæki hafa að undanförnu flutt höfuðstöðvar sínar utan Bandaríkjanna til að forðast skatta og hafa mörg þeirra sætt gagnrýni fyrir það.