Vinsæll álitsgjafi og fyrirlesari um áhrif stafrænnar tækni á framþróun fjármálageirans, Chris Skinner, höfundur bókanna Digital Banking og Value Web, hefur fjárfest í Meniga. Skinner hefur setið í ráðgjafaráði fyrirtækisins síðan 2011, en fjárfesting hans kemur í kjölfar þess að Meninga hefur hafið samstarf við spænska bankann IberCaja.

Meniga hefur jafnframt bætt við nýrri starfstöð í Varsjá í Póllandi, en markmið fyrirtækisins er að mæta þörf á stafrænum bankalausnum.

Á heimasíðu Meniga segir að fjárfesting Skinners sé dæmi um trú hans á fyrirtækinu og lausnum þess, en Skinner er stofnandi og stjórnarformaður The Financial Services Club, sem er evrópskt rannsóknarnet fyrir stafræna bankatækni.

Í viðtali við Viðskiptablaðið í byrjun nóvember sagði Skinner að hann óttaðist að hefðbundnir bankarnir gætu hlotið sömu örlög og bandarísku bílarisarnir General Motors og Ford sem brugðust ekki við samkeppni japanskra bílaframleiðenda. Fjármálatæknifyrirtæki gætu tekið yfir stóran hluta af hefðbundnum tekjustofnum bankanna ef þeir myndu ekki bregðast við örri tækniþróun.

Skinner hefur verið kosinn einn af 40 áhrifamesta einstaklingunum sem þú ættir að kynnast af City AM og einn af 40 áhrifamestu einstaklingunum í fjármálatækni af Financial News auk þess að hafa fengið viðurkenningar frá Finance Monthly. Hann hefur jafnframt verið ráðgjafi Hvíta hússins, Alþjóðabankans og Alþjóðaefnahagsráðsins.