Sala hjá Ford Motors í Bandaríkjunum dróst saman um 7% í júní miðað við sama tíma í fyrra, mestmegnis vegna minni eftirspurnar eftir jeppum. Markaðshlutur Ford í Bandaríkjunum hefur dregist saman á liðnum árum og var 17,4% í júníbyrjun miðað við 17,9% hlut á sama tíma í fyrra.

Engu að síður hefur samdrátturinn hjá Ford í júní verið minni en sá samdráttur sem hefur orðið á sölu fólksbíla, að sögn George Pipas hjá Ford Motors. Að hans sögn hefur orðið 9% heildarsamdráttur á markaðnum, samkvæmt söluskýrslum bílasala. Pipas sagði ennfremur að með tilliti til þess byggist hann við að markaðshlutdeild Ford ykist í fyrsta sinn milli mánaða síðan í ágúst á síðasta ári og að það yrði til þess að líkurnar á því að Ford næði markmiðum sínum um að draga úr minnkandi markaðshlutdeild yrðu meiri.

Reiknað er með að helsti keppinautur Ford, General Motors, muni innan tíðar tilkynna um verulegan sölusamdrátt. Sala hjá DaimlerChrysler dróst saman um 15% í júní á meðan sala Toyota jókst um meira en 14% í mánuðinum. Pipas, sagði lagerstöðu Ford standa í 796 þúsund ökutækjum í lok júnímánaðar miðað við 850 þúsund ökutæki í fyrra. Engu að síður jókst fjöldi bifreiða á lager fyrirtækisins miðað við stöðuna í maímánuði. Ford býður nú viðskiptavinum sínum upp á hagstæð kjör til að losna við eins mikið af óseldum bílum og framast er unnt.

Í síðustu viku tilkynnti Chrysler að hver sem er gæti keypt hjá þeim bíl á "starfsmannaafslætti" sem svipar til þeirra aðgerða sem stóru bílaframleiðandurnir þrír í Detroit, GM, Ford og Chrysler, gripu til síðastliðið sumar. Aðgerðirnar leiddu til þess að met voru slegin í bílasölu yfir sumarmánuðina en um leið dró úr sölu á síðari hluta ársins. Að sögn Pipas er ekki á dagskrá í bili að bjóða slíka afslætti hjá Ford.

Stór hluti viðskipta Ford í júní kom frá opinberum aðilum og bílaleigum sem keyptu mikið magn bíla. Bílaframleiðandinn jók slíka sölu um 5% í mánuðinum á meðan sala til almennings dróst saman um 12%. Á meðan magnsala hjálpar bílaframleiðandanum að losa sig við umframbirgðir er litið svo á að almenn sala sé betri mælikvarði á raunverulega eftirspurn auk þess sem hún skilar framleiðandanum meiru.