Bandaríski bílaframleiðandinn Chrysler hefur verið dæmdur til að greiða fjölskyldu fjögurra ára drengs, sem dó í bilslysi fyrir þremur árum síðan, skaðabætur að fjárhæð 150 milljóna Bandaríkjadala. Fjárhæðin jafngildir tæpum 21 milljarði íslenskra króna. BBC News greinir frá málinu.

Remington Walden var farþegi í Jeep Grand Cherokee bifreið þegar flutningabíll keyrði aftan á hann með þeim afleiðingum að eldsneytistankur sprakk í bifreiðinni og drengurinn lést. Chrysler innkallaði bifreiðar með sambærilega tanka sem framleiddir voru á tímabilinu 1993 til 1998 vegna hættu sem stafaði af þeim. Bifreiðin sem Remington lést í var hins vegar framleidd árið 1999.

Chrysler hélt því fram að 1999-módelið hefði ekki verið haldið sama galla og væri því ekki hættulegt. Kviðdómur í málinu féllst hins vegar ekki á málsástæður bílaframleiðandans, og komst að þeirri niðurstöðu að hann bæri ábyrgð á afleiðingum slyssins þar sem hann hefði ekki varað neytendur við þeirri hættu sem stafaði af staðsetningu eldsneytistanksins í bifreiðinni.

Tankurinn var staðsettur aftast í bílnum, en fjölskyldan hélt því fram að afleiðingarnar hefðu ekki orðið hinar sömu ef hann hefði verið staðsettur framar. Chrysler var dæmt til að greiða 99 prósent af skaðabótafjárhæðinni, en ökumaður flutningabílsins þarf að greiða 1 prósent.