Chrysler Group LLC stefnir hátt með algjörlega nýjan Dodge Charger sem kemur á markað síðar á þessu ári. Er m.a. lögð áhersla á að kynna bílinn sem lögreglubíl. „Við munum fara af krafti inn á þann markað,” sagði Peter Grady yfirmaður hjá Chrysler í ræðu hjá NAFA Fleet Managment Association.

Greint er frá þessu í The Detroit News og sagt að þessu yfirlýsing setji kraft í samkeppni bílaframleiðenda í Detroit um hylli lögregluembætta um öll Bandaríkin. Ford mun hætta framleiðslu á Crown Victoria Police Interceptor í september 2011, en sá bíll hefur verið leiðandi á þessum markaði. Hefur Ford verið með um 70% markaðshlutdeild í sölu lögreglubíla með þessum bíl. Mun arftakinn byggja á hönnun Ford Taurus.

Eldri gerðin af Dodge Charger frá Chrysler hefur verið með um 18% markaðshlutdeild. Nýi Chargerinn verður reynslukeyrður hjá Michigan State Police Precision Driving Unit sem prófar lögreglubíla frá öllum framleiðendum. Niðurstaðan mun síðan birtast í árlegri skýrslu sem kemur út í nóvember.

Þá er General Motors Co. að kynna nýjan afturhjóladrifinn Chevrolet Caprice lögreglubíl sem kemur á markað 2011.

Í skýrslunni „The Police Vehicle Evaluation report for 2010 models” sem kom út í nóvember sl. voru 2010 gerðirnar af Charger, Ford Interceptor, Chevrolet Impala og Tahoe lögreglubílum prófaðar. Þar kom Dodge Charger best út með sína 360 hestafla Hemi V-8 vél.