Bandarísku bílaframleiðendurnir Chrysler og General Motors eru í viðræðum um að hanna í sameiningu stóran nýjan borgarjeppa (SUV) í líkingu við Chevrolet Suburban, en Chrysler hefur engan slíkan jeppa í sínum röðum.

Viðræðurnar hafa átt sér stað undanfarna sex mánuði en engin niðurstaða hefur enn fengist, sagði heimildamaður sem þekkir vel til. Ef samkomulag næst myndi það spara Chrysler mikinn þróunarkostnað, en rekstrartap bílaframleiðandans var 1,5 milljarður Bandaríkjadala árið 2006.