Bandaríski bílaframleiðandinn Chrysler tilkynnti í gær að hann hygðist segja upp þrettán þúsund manns, loka stórri verksmiðju og minnka starfsemi sína í þremur öðrum verksmiðjum. Aðgerðirnar eru liður í því að endurskipuleggja rekstur fyrirtækisins til að koma á arðsemi í rekstri þess fyrir árið 2008.

Chrysler sagðist ennfremur vera að leita eftir heppilegum samstarfsaðilum og það útilokaði ekki neinn aðila í þeirri leit. Stutt er síðan að bílaframleiðandinn birti uppgjör sitt fyrir árið 2006 þar sem kom fram að það hefði tapað 1,5 milljörðum Bandaríkjadala á árinu.

Hlutabréf í Chrysler hækkuðu strax um 4% í kauphöllinni í New York eftir að fyrirtækið kynnti áform sín og stóð í 67,01 dollara á hlut.