Bandaríski bílarisinn Chrysler mun loka öllum sínum 30 bílaverksmiðjum yfir jólin og mun ekki opna aftur fyrr en í fyrsta lagi 19. janúar. Ástæðan er gríðarleg fjárhagsvandi fyrirtækisins, en 46.000 starfsmenn vinna hjá Chrysler.

Kemur þessi ákvörðun í kjölfar þess að öldungadeild bandaríkjaþings varð ekki við ósk bílarisanna þriggja um 14 milljarða dala stuðning í síðustu viku. Fer nú vaxandi ótti við algjört hrun bandarísks bílaiðnaðar.

General Motors tilkynnti þegar í síðustu viku lokun á 30% af sínum verksmiðjum í Norður-Ameríku. Þá kynnti Ford í gær að fyrirtækið myndi framlengja hefðbundið tveggja vikna jólafrí um eina viku í 10 verksmiðjum sínum í Bandaríkjunum.

Hafa bílarisarnir þrír varað bandarísk stjórnvöld við því að ef yfirvöld verði ekki við óskum þeirra um verulegan fjárstuðning, þá muni milljónir manna missa vinnuna. Ríkisstjórn Bush hefur sagt að reynt verði að koma í veg fyrir hrun bílaiðnaðarins og hugsanlega takist að útvega lán til fyrirtækjanna þriggja á næstu dögum.