Chrysler Group LLC hyggst leggja mikla áherslu á fullvaxinn nýjan Dodge Ram skúffubíl og ætlar að útvíkka atvinnubíladæmið í framleiðslu á vörubílum og allt að 18 hjóla dráttarbílum. Nýi Dodge Ram Pickup bíllinn verður framleiddur bæði í stærðinni 2500 og 3500 sem eru svokallaðir „heavy-duty pickups.”

Chrysler hyggst byggja á góðum árangri vörubíladeildar sinnar og er þetta hluti af fimm ára áætlun í Auborn Hills bílaverksmiðjunnar um að skila hagnaði á árinu 2011. Takmarkið er að auka Dodge Ram söluna á heimsvísu úr 280.000 bílum í 415.000 bíla árið 2014, en meginhluti sölunnar er reyndar í Bandaríkjunum. Þar er Dodge Ram með 16,5% hlutdeild á þeim markaði sem fölnar þó í samanburði við söluna á Ford F-150 sem er mest seldi skúffubíllinn og einnig í samanburði við Chevrolet Silverado. Áætlunin gerir líka ráð fyrir að leggja meiri áherslu á einstakar gerðir undir Dodge nafninu og að taka inn í dæmið ýmsa framleiðslu frá ítalska samstarfsaðilanum Fiat SpA að því er segir í frétt The Detroit News.

Fyrsta verk Sergio Marchionne eftir að hann tók við forstjórastöðunni hjá Chrysler var að skipta Dodge upp í tvær deildir, þ.e. fyrir Ram skúffubíla og atvinnubíla og síðan í Dodge bíladeild fyrir allar aðrar gerðir af Dodge, þar á meðal smárútur og jeppa. Með þessu hyggjast menn ná aukinni hlutdeild í atvinnubílageiranum sem talin er geta skilað góðum hagnaði.

Gary Dilts, aðstoðarforstjóri J.D. Power & Associates, segir það alls ekki slæma hugmynd að skera Dodge Truck deildina frá annarri framleiðslu sem hún á enga samleið með. „Dodge Ram bílarnir eru í allt öðru umhverfi en t.d. Dodge Caliber,” segir Dilts.