Chuck ehf., sem stofnað var í apríl 2014 við opnun skyndibitastaðarins Chuck Norris grill á Laugavegi 30, hefur verið úrskurðað gjaldþrota. Úrskurðurinn var kveðinn upp í héraðsdómi Reykjavíkur þann 21. mars síðastliðinn.

Pétur F. Gíslason lögmaður var skipaður skiptastjóri í búinu. Skiptafundur verður mánudaginn 11. júní 2018.

Chuck ehf. er í eigu Vilhjálms Sanne Guðmundssonar, eiganda viskíbarsins Dillon sem er á hæðinni fyrir ofan Chuck Norris grill.

Í Lögbirtingarblaðinu er skorað á alla þá, sem telja til skulda eða annarra réttinda á hendur búinu eða eigna í umráðum þess, að lýsa kröfum sínum fyrir fyrrgreindum skiptastjóra í búinu innan tveggja mánaða frá fyrri birtingu innköllunarinnar í Lögbirtingarblaðinu.