Leyniþjónusta Bandaríkjanna hefur kallað á Google sér til hjálpar við að halda utan um upplýsingar um grunaða glæpamenn. Þjóðaröryggisráð Bandaríkjanna hefur sett upp vefþjóna þar sem leitartækni Google er notuð til að vinna úr upplýsingum sem njósnarar hafa safnað.

Google mun einnig útbúa síðu í Wikipedia-stíl, en hún gengur undir nafninu Intellipedia, þar sem njósnarar geta lagt inn upplýsingar um viðfangsefni sín. Kollegar þeirra geta svo nálgast upplýsingarnar, ef þeir hafa þá aðgangsheimild sem til þarf, og breytt því sem hefur verið skrifað og krækt úr því í annað efni, líkt og á Wikipedia. Nú þegar hafa 37.000 notendur skráð sig á Intellipedia og 35.000 greinar eru komnar í gagnagrunninn þar.

„Hver starfsmaður hafði sínar upplýsingar fyrir sig. Þær voru geymdar í Word-skjali, en við hvetjum menn nú til að deila þeim með öðrum svo að fleiri geti nýtt sér það“ hefur Times eftir Sean Dennehy, yfirmanni Intellipedia þróunar hjá CIA.