*

laugardagur, 19. september 2020
Innlent 28. október 2017 10:10

Cintamani hagnast um 12,8 milljónir

Hagnaður útivistarverslunarinnar dróst saman um rúmlega helming milli ára.

Ritstjórn
Kristinn Már Gunnarsson, forstjóri Cintamani.
Haraldur Guðjónsson

Cintamani ehf., sem framleiðir og selur útivistarfatnað, hagnaðist um 12,8 milljónir króna árið 2016 borið saman við tæpar 30 milljónir árið 2015. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins. Dróst hagnaður Cintamani því saman um tæplega 56% milli ára. 

Tekjur af aðalstarfsemi námu 949,5 milljónum í fyrra en voru tæplega 894 milljónir árið 2015. Rekstrargjöld voru 860,9 milljónir samanborið við 813,9 milljónir árið 2015. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir nam 88,5 milljónum en var 80,1 milljón árið 2015.

Eignir Cintamani námu 730,8 milljónum í árslok 2016 en voru tæplega 688 milljónir árið áður. Eigið fé var 349,7 milljónir í árslok 2016 en var 336,9 í árslok 2015.

Handbært fé Cintamani stóð í 14,5 milljónum í árslok borið saman við 138,2 milljónir í lok árs 2015. Fjárfestingar námu 82 milljónum. 

Cintamani er í eigu Kristins Más Gunnarssonar forstjóra fyrirtækisins (70%) og Frumtak slhf. (30%).