Cisco Systems á Íslandi, dótturfélag Cisco Systems í Hollandi, skilaði tæplega 3,5 milljóna króna hagnaði í fyrra, sem er ekki langt frá þeim hagnaði sem varð á rekstri fyrirtækisins árið 2011, en þá var hann rúmar 3,7 milljónir króna.

Ársreikningurinn er samandreginn og því er ekki ljóst hve velta Cisco á Íslandi var mikil, en rekstrarhagnaður nam rétt rúmum 3,7 milljónum króna. Eignir félagsins námu 27,7 milljónum króna um síðustu áramót og þar af eru kröfur á tengd félög upp á 26,7 milljónir króna. Skuldir eru samtals um 5,2 milljónir og eru allar skammtímaskuldir. Stærsta eign félagsins er óráðstafað eigið fé upp á 21,9 milljónir.

Cisco Systems á Íslandi ehf. er einkahlutafélag og er meginstarfsemi félagsins fólgin í sölu á forritum, nettengingum og öðrum vörum tengdum samskipta- og upplýsingaiðnaði og þjónustu því tengdu. Stjórnarmenn Cisco á Íslandi eru þeir Evan Barry Sloves og Mark Thomas Gorman.