Starfsfólk í lánadeild Citigroup, þriðja stærsta banka Bandaríkjanna, millifærði fyrir mistök 900 milljónir dollara, eða um 122 milljarða króna, á miðvikudaginn í síðustu viku. Peningarnir voru millifærðir til lánardrottna snyrtivörufyrirtækisins Revlon, sem á í fjárhagslegum erfiðleikum að stríða. BBC segir frá .

Bandaríski bankinn hefur beðið alríkisdómstóla um að neyða vogunarsjóðinn Brigade Capital að skila 176 milljónum dollara. Bankinn segist hafa ætlað, að hálfu Revlon, að millifæra einungis 1,5 milljónir dollara til að greiða vexti á láni frá vogunarsjóðnum. Vogunarsjóðurinn hefur neitað að endurgreiða bankanum þrátt fyrri „kristaltær sönnunargögn um að greiðslan hafi verið gerð fyrir mistök,“ segir bankinn.

Citigroup segir greiðsluna hafa verið „verkleg mistök“ (e. operational mistake). „Þegar Citibank  uppgötvaði mistökin, þá sendi hann tafarlaust beiðni á viðtakendurna um að skila peningunum,“ kemur fram í málsgögnum bankans.

Bankinn var að undirbúa að stíga niður sem umsjónaraðili Revlon lánsins þegar hann millifærði fjárhæðina á lánveitendurna. Revlon hefur farið illa út úr heimsfaraldrinum og Brigade er meðal lánardrottna sem hefur höfðað mál gegn fyrirtækinu vegna áætlana þess um skuldbreytingar.