Stjórnendur Citigroup tilkynntu í gær að þeir hafi lagt fram vinveitt yfirtökutilboð í japanska fjármálafyrirtækið Nikko Cordial. Citigroup, sem á nú 4,9% í Nikko, er reiðubúið til þess að borga 11,63 Bandaríkjadali fyrir hlutinn og gæti því þurft að reiða fram 10.8 milljarði dala til þess að ná undirtökunum í fyrirtækinu. Ef af verður er um að ræða stærstu fjárfestingu erlends fyrirtækis á japönsku fjármálafyrirtæki. Tilboðið miðast við 0.75 % yfirverð miðað við gengi við lok viðskipta í gær, en fyrr um daginn hafði gengið hækkað um 13,7% í kauphöllinni í Tókýó.

Undanfarnar vikur hefur verið þrálátur orðrómur um að Citigroup, sem er eitt stærsta fjármálafyrirtæki Bandaríkjanna, hygðist leggja fram yfirtökutilboðið. Með kaupunum myndi staða Citigroup í sölu á fjármálaþjónustu í öðru stærsta hagkerfi heims verða mun sterkari, en Nikko Cordial rekur um hundrað útibú víðsvegar í Japan. Búist er við að eftirspurn eftir slíkri þjónustu muni vaxta ört á næstu árum sökum þess hve sterk lausafjárstaða japanskra fyrirtækja er.

Gengi bréfa í Nikko Cordial hafa fallið um helming undanfarið í kjölfar þess að yfirvöld dæmdu það til þess að borga 4,3 milljónir Bandaríkjadala í sekt fyrir brot á bókhaldsreglum í fyrra. Gengishrunið hefur orðið til þess að ýta undir væntingar á yfirtöku. Talið er að Mizuho, annar stærsti banki Japans, íhugi einnig að leggja fram yfirtökutilboð. Hinsvegar er talið að staða Citigroup sé sterk í samkeppni um Nikko Cordial þar sem að fyrirtækin hafa rekið saman fjárfestingarbanka, Nikko Citigroup, um átta ára skeið.