Bandaríski bankarisinn Citigroup hefur tekið yfir hina þekktu bresku tónlistarútgáfu EMI í kjölfar þess að Terra Firma, framtaksfjárfestingarsjóður í eigu Guy Hands og eigandi EMI, gat ekki staðið við skuldbindingar sínar við bankann sem var einn stærsti lánveitandi sjóðsins. Frá þessu greinir BBC en á meðal listamanna sem eru á mála hjá EMI eru söngfuglinn Lily Allen og hljómsveitin vinsæla Coldplay. Auk þess voru Bítlarnir á mála hjá EMI á sínum tíma.

Terra Firma, einn af þekktari framtaksfjárfestingarsjóðum heims, keypti EMI árið 2007 á 4,2 milljarða punda og fjármagnaði Citigroup kaupin sem stjórnendur Terra Firma munu síðar hafa séð eftir og talið sig hafa greitt alltof hátt verð fyrir útgáfufyrirtækið. Að sögn BBC hafa Terra Firma og bakhjarlar sjóðsins nú tapað öllum þeim fjármunum sem lagðir voru í kaupin, um 1,7 milljarði punda, og hefur Citigroup sömuleiðis þurft að afskrifa um 2,2 milljarða punda vegna yfirtökunnar.

„Þetta er jákvæð þróun fyrir EMI, starfsfólk þess, listamenn, höfunda og birgja, “ segir Stephen Volk, aðstoðarforstjóri Citigroup við BBC. Stjórn fyrirtækisins verður óbreytt en Citigroup gæti selt það þegar fram líða stundir.