Citigroup mun taka sjö sérstaka verðbréfasjóði (e. structured investment vehicles) inn á efnahagsreikning bankans. Í Vegvísi Landsbankans segir að skráðar eignir séu 49 milljarðar Bandaríkjadalir og skuldirnar 58 milljarðar dalir.

Í Vegvísinum segir að óvissan um stöðu og framtíð slíkra sjóða hafi verið talin ein af rótum lánsfjárkreppunnar enda fjárfestu þeir mikið í skuldabréfavafningum tengdum ótryggum húsnæðislánum. Citigroup fann þessa tegund sjóða upp árið 1998 og hefur lengst af verið stærsti stjórnandi slíkra sjóða. Félagið hafði tilkynnt að sérstöku verðbréfasjóðirnir yrðu ekki teknir inn í efnahagsreikning en nýr forstjóri, Vikram Pandit, breytti þeirri stefnu enda ljóst að bankinn yrði að taka á sig nokkuð af tapi sjóðanna. Með þessu fylgir Citigroup í fótspór HSBC og fleiri evrópskra banka.