Citigroup, stærsti banki Bandaríkjanna mælt í eignum, hyggst gefa út víkjandi skuldabréf fyrir 6 milljarða dollara til að þétta efnahagsreikning sinn í kjölfar niðurfærslna upp á 16 milljarða dollara. Bloomberg greinir frá þessu í kvöld.

Samkvæmt heimildum Bloomberg munu skuldabréfin bera fasta 8,4% vexti í 10 ár. Vegna afskrifta tengdum undirmálslánum hefur Citigroup þurft að afla sér 30 milljarða dollara frá því í nóvember, bæði frá einkafjárfestum og ríkisstjórnum. Citigroup hefur þegar á þessu ári gefið út skuldabréf fyrir meira en 7 milljarða dollara, ýmist í formi forgangsbréfa eða breytanlegra.

Í síðustu viku tilkynnti bankinn um ríflega 5 milljarða tap á fyrsta fjórðungi og greindi frá því að allt að 9000 manns yrði sagt upp.