Bandaríski bankinn Citigroup, sem fékk 45 milljarða dala að láni frá ríkinu til að koma í veg fyrir gjaldþrot, er sakaður um að nota hlutabréf í sjálfum sér í auknum mæli til að greiða starfsmönnum bónusgreiðslur. Það eru helst starfsmenn á sviði fjárfestinga og miðlunar sem fá bónusa.

Bankinn hyggst greiða allt að 50% af bónusgreiðslum ársins 2010 með hlutabréfum í bankanum, samanborið við 40% árið áður, að því er kemur fram í frétt Bloomberg. Munu 15 æðstu framkvæmdastjórar Citigroup fá hlutabréf sem nema alls um 50 milljónum dala.

Bent er á í frétt Bloomberg að stjórnvöld víðsvegar um heiminn hafa gagnrýnt bankana fyrir bónusa og farið fram á að dregið verði úr slíkum greiðslum. Fjármálastofnanir virðast hinsvegar  ekki vera á sama máli, þrátt fyrir að margar hverjar væru ekki á lífi án ríkisaðstoðar.

Citigroup hagnaðist um 10,6 milljarða dala á síðasta ári.