Bandaríski fjárfestingarbankinn Citigroup, sem hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum vegna hrunsins á bandaríska fasteignamarkaðnum með undirmálslán, gæti þurft að afskrifa hjá sér 8,9 milljarða Bandaríkjadala til viðbótar á öðrum ársfjórðungi, að mati Goldman Sachs.

Goldman lækkaði einnig mat sitt á Citigroup – úr „kaupa” í „hlutlaust” – og sagði að fjármálaumhverfið virtist vera að versna hraðar heldur en spáð hefði verið í upphafi.

Goldman segist reikna með því að Citigroup þurfi að sækja sér aukið fjármagn til að styrkja eiginfjár grunn sinn, minnka arðgreiðslur til hluthafa eða selja eignir.

Heildartap Citigroup frá því að lánsfjárkreppan hófst á fjármálamörkuðum fyrrasumar nemur tæplega 42 milljörðum dala.

Jafnframt hefur bankinn þurft að tilkynna um þrettán þúsund uppsagnir á þessu ári, og væntingar eru um að frekari uppsagnir verði tilkynntar á næstunni.