Bandaríski fjárfestingabankinn Citigroup, stærsti banki landsins, sagðist í dag stefna að því að selja eignir að andvirði 400 milljarða Bandaríkjadala á næstu tveimur til þremur árum.

Salan er liður í áformum Citigroup að skera niður kostnað og auka hagkvæmni í rekstri.

Citigroup hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum vegna hrunsins á bandarískum fasteignamarkaði með fjármálagjörninga í tengslum við undirmálslán og lánsfjárkreppunnar á fjármálamörkuðum.

Samtals hefur bankinn þurft að afskrifa hjá sér 45 milljarða dala, auk þess sem Citigroup hefur sótt sér nýtt fjármagn fyrir um 40 milljarða dala.

Citigroup greindi einnig frá því að félagið stefni að því að auka hreinar tekjur af kjarnarekstri um 10%. Í þeirri tölu er meðal annars gert ráð fyrir 7% tekjuaukningu í kreditkortastarfsemi, 8% í einkabankaþjónustu, 9% í verðbréfasviðskiptum og eignastýringu, og 14% í viðskiptaþjónustu

Þrátt fyrir að Citigroup hafi áður sagt frá áformum sínum um að losa eignir af bókum sínum til að styrkja eiginfjárgrunn bankans, þá kemur það sérfræðingum á óvart um hversu háa upphæð er að ræða – 400 milljarða dala - sem mun væntanlega auka enn á sögusagnir þess efnis að fjárfestingabankanum verði skipt upp.