Bandaríska fjármálafyrirtækið Citigroup samþykkti í gær að kaupa Bisys Group Inc. fyrir 1,45 milljarða Bandaríkjadala, en félagið hyggst með því auka enn frekar við þjónustu sína í starfsemi vogunar- og fjárfestingarsjóða. Hluthafar í Bisys, sem hefur boðið upp á fjármálaþjónustu fyrir banka sem kjósa að úthýsa ákveðnum verkefnum, munu fá 11,85 dollara í peningum fyrir hvern hlut auk sérstakrar arðgreiðslu upp á fimmtán sent á hlut.

Í samkomulaginu er einnig gert ráð fyrir að Citigroup muni selja tryggingar og lífeyrissjóðseiningar Bisys til J.C Flowers og þannig minnka heildargreiðsluna fyrir félagið í 800 milljónir dollara.