Allt stefnir í að nokkur barátta verði milli bankanna Citigroup og Wells Fargo um yfirtöku á Wachovia, sem á í talsverðum fjárhagsvandræðum. Samkomulag hafði náðst um 2,16 milljarða dollara yfirtöku á bankastarfsemi Wachovia, en það tilboð var gert með stuðningi hins opinbera. Wells Fargo hafa nú bætt um betur og boðið 15,1 milljarð fyrir alla starfsemi Wachovia. Bloomberg segir frá þessu.

„Skattborgarinn greiðir ekki krónu í okkar tilboði,“ segir stjórnarformaður Wells Fargo, Richard Kovacevich. Hann segir jafnframt tilboð síns banka betra, þar sem það sé hærra og sameini banka með „svipaðan menningarbakgrunn og gildi."

Vikram Pandit, forstjóri Citigroup, hafði treyst á kaupin á Wachovia til að byggja upp starfsemina aftur eftir miklar afskriftar síðustu fjórðung, en Citigroup hefur afskrifað um 61 milljarð dollara af fjármálagjörningunum tengdum undirmálslánum. Markaðsvirði bankans hefur minnkað um 38% á þessu ári og er nú um 100 milljarðar dollara, sem er mun minna er Wells Fargo.

Ef Wells Fargo tekst að keyra í gegn yfirtökuna á Wachovia, myndu heildarinnlána fyrrnefnda bankans nálgast Citigroup og næmu 787 milljörðum dollara. Heildarinnlán Citigroup nema í dag 826 milljörðum dollara.

Pandit segir að sinn banki muni hafa betur í þessari deilu þar sem samkomulag liggi fyrir milli Citigroup og Wachovia. Kovacevich sagði hins vegar á símafundi með greiningaraðilum í gær að samningurinn um yfirtökuna  á Wachovia væri öruggur. Talið er líklegt að Citigroup muni hækka tilboð sitt eða beita lagalegum úrræðum til að fá sínu fram í málinu.