Gengi hlutabréfa Nordea, stærsta banka Norðurlanda, hækkuðu tæplega um þrjú prósent á mörkuðum í gær í kjölfar þess að sænska viðskiptablaðið Affärsvärlden greindi frá því að forráðamenn bandaríska bankarisans Citigroup og einkafjárfestingasjóðurinn Kohlberg Kravis og Roberts (KKR) hafi sett sig í samband við sænsk stjórnvöld um kaup á hlut sænska ríkisins í bankanum.

Sænska ríkið á 19,9% hlut í bankanum og hafa núverandi stjórnvöld í Svíþjóð lýst því yfir að þau hyggist selja hann. Ákvörðun stjórnvalda í Stokkhólmi, sem og önnur einkavæðingaráform hennar, hafa vakið upp áhuga fjárfesta víða um heim. Frétt blaðsins byggist á ónafngreindum heimildum. Samkvæmt frétt Affärsvärlden hefur Charles Chuck Prince, forstjóri Citigroup, lengi haft hug á að gera starfsemi bankans umsvifameiri utan Bandaríkjanna. Talið er nánast öruggt að slagurinn um hlut sænska ríkisins í Nordea verður harður enda telja margir söluna verða til þess að knýja fram aukna hagræðingu og stærri rekstrareiningar í fjármálageiranum á Norðurlöndum.