Bandaríski bankinn Citigroup tapaði 2,8 milljörðum Bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi þessa árs og er þetta fjórði ársfjórðungurinn í röð sem bankinn tapar fjármagni.

Tapið nemur sem fyrr segir 2,8 milljörðum dala sem gerir um 60 cent á hvern hluti samanborið við hagnað upp á 2,2 milljarða á sama tíma í fyrra eða 44 cent á hvern hlut.

Tekjur bankans á þriðja ársfjórðungi voru tæpir 16,7 milljarðar dala og drógust saman um 23%.

Að sögn Reuters fréttastofunnar er tap bankans þó litlu minna en greiningaraðilar höfðu spáð fyrir um en gert var ráð fyrir tapi upp á 70 cent á hvern hlut. Hins vegar eru tekjur hans mun minni en greiningaraðilar höfðu að meðaltali gert ráð fyrir tekjum upp á 19,4 milljarða króna.

Afskriftir bankans á tímabilinu nema um 4,4 milljörðum dala sem nánast allt tengist undirmálslánum í Bandaríkjunum.