Greiningardeild bandaríska fjárfestingabankans Citigroup hefur breytt ráðgjöf sinni gagnvart Kaupþing og telur að áhætta bankans hafi aukist. Citigroup setur nú verðmiðið á 1.250 kr. á hlut en hafði áður mælt með kaupum á 1.500 krónur á hlut. Greiningardeildin telur að Kaupþing hafi hærri áhættuþætti en aðrir norrænir bankar.

Í greiningu bankans kemur fram að hann telur að Kaupþing bjóði möguleika fyrir umtalsverðri hagnaðaraukningu sé litið til skamms tíma. Þeir telja hins vegar að sjaldan eða aldrei hafi verið erfiðara að sjá fyrir áhættuþætti bankans.

Þeir þættir sem Citigroup horfir einkum til er aukinn fjármögnunarkostnaður bankans, tengslin við fyrirtæki sem háð eru ytri fjármögnun, breytileiki í tekjum og áhætta í íslenska hagkerfinu.