Enska úrvalsdeildarliðið Manchester City hefur eytt að lágmarki 151 milljón pundum, um 27,4 milljörðum króna, í kaup á sex nýjum framherjum frá því að Sheikh Mansour bin Zayed Al Nahyan og Abu Dhabi-sjóður hans keyptu félagið í ágúst 2008. Mánuði áður en yfirtaka hans átti sér stað keypti City einnig Brasilíumanninn misheppnaða Jo á 18 milljónir punda, um 3,3 milljarða króna. Því hafa kaup á sjö framherjum á síðustu tveimur og hálfu ári kostað félagið að lágmarki 30 milljarða króna.

Til viðbótar fengu allir framherjarnir sjö á bilinu 150 til 250 þúsund pund í laun á viku, eða sem samsvarar 27,3 til 54,4 milljónum króna. Launakostnaður Manchester City er enda orðin það hár að velta félagsins, 125 milljón pund á síðustu leiktíð, dugaði ekki til að greiða laun leikmanna, þjálfara og annarra starfsmanna liðsins. Launakostnaðurinn var nefnilega um 133 milljónir punda,  24,2 milljarður króna tímabilið 2009/2010. Hann hafði þá hækkað um 50 milljónir punda frá tímabilinu á undan.

Metfé fyrir Robinho

Fyrsti framherjinn sem nýju eigendurnir keyptu var Brasilíumaðurinn Robinho. Hann gekk til liðs við City fyrir 32,5 milljónir punda daginn eftir að Abu Dhabi United Group keyptu félagið. Verðmiðinn er sá hæsti sem enskt knattspyrnufélag hefur nokkru sinni greitt fyrir leikmann.

Robinho byrjaði vel en eftir því sem breski veturinn varð kaldari hrakaði frammistöðu hans stöðugt. Hann var síðan seldur til AC Milan með töluverðum afföllum sumarið 2010 eftir að hafa eytt hluta tímabilsins á undan í láni hjá Santos í Brasilíu.

Eyðslan nær nýjum hæðum

Sumarið 2009 átti að blása til stórsóknar og Mark Hughes, þáverandi aðalþjálfari City, keypti þrjá rándýra framherja. Fyrst kom Carlos Tevez frá erkióvinunum Manchester United. Kaupverð hans hefur aldrei verið gefið upp en talið er að það nemi á bilinu 25-47 milljónir punda. Þegar kaupverð allra framherjanna er tekið saman er miðað við lægri mörk þess bils. Tevez hefur alla tíð síðan skorað grimmt fyrir félagið og var gerður að fyrirliða þess fyrir yfirstandandi tímabil. Hann er án nokkurs vafa best heppnuðust framherjakaup City frá því að miðausturlandapeningar fóru að streyma inn í félagið.

Næsti framherji sem var keyptur er Tógó-maðurinn Emmanuel Adebayor. Verðmiðinn á honum var 25 milljónir punda, um 4,5 milljarðar króna. Honum hefur gekk vel til að byrja með en er í dag úti í kuldanum. Miklar líkur eru taldar á því að hann yfirgefi félagið í þessum mánuði fyrir mun lægri upphæð en City greiddi upprunalega fyrir hann.

Santa Cruz og hinn hressi Balotelli

Viku eftir kaupin á Adebayor var annar stór og stæðilegur framherji , Roque Santa Cruz, keyptur á 17,5 milljónir punda, um 3,2 milljarða króna. Hann hefur aldrei átt fast sæti í liðinu, einungis skorað þrjú mörk í búningi þess og mun mjög líklega fara frá því í yfirstandandi félagaskiptaglugga fyrir brot af þeirri fjárhæð sem City greiddi fyrir hann.

Síðasta sumar einbeitti City sér aðallega að því að kaupa ótrúlegt magn af  miðjumönnum. Eini framherjinn sem bættist í hópinn var hinn eiturhressi Mario Balotelli á 24 milljónir punda, um 4,4 milljarða króna. Hann hefur einungis spilað níu leiki fyrir liðið síðan en náð að skora fimm mörk í þeim.  Balotelli hefur ekki séð tilefni til að fagna nokkru þeirra, enda þekktur fyrir að sýna engar tilfinningar nema skapofsa inni á knattspyrnuvellinum.

Dzeko bætist í hópinn

Í lok síðustu viku bættist síðan enn ein stórskyttan í framherjasveit City þegar gengið var frá 27 milljón punda, 4,9 milljarða króna, kaupum á Bosníumanninum Edin Dzeko.  Sá hefur verið einn heitasti framherji Evrópu síðustu tímabil og skorað 96 mörk í 155 leikjum fyrir þýska liðið Wolfsburg á þremur og hálfu ári í herbúðum þess.

Vonir stjórnenda City eru bundnar við að honum muni ganga betur  en flestum ofantöldum að festa sig í sessi hjá félaginu.