Íslenska markaðsrannsóknarfyrirtækið Clara vakti athygli og áhuga stórra fyrirtækja á alþjóðlegri leikjaráðstefnu í New York nýlega að því er segir í tilkynningu. Ráðstefnuna sóttu stærstu nöfnin í leikjabransanum og voru framkvæmdastjórar frá risum á borð við EA Sports, Activision/Blizzard og Microsoft viðstaddir og héldu erindi.

Íslenska fyrirtækið Clara var þátttakandi en það hefur nýlega hafið afskipti af þessum vaxandi iðnaði.

"Það var ánægjulegt að finna fyrir áhuganum á því sem við vorum að kynna þarna. Allir stærstu leikjaframleiðendur og útgefendur voru þarna samankomnir til skrafs og ráðagerða og að kynna sér það nýjasta í leikjaiðnaðinum," segir Gunnar Hólmsteinn framkvæmdastjóri Clara.

Notar flókna gerfigreind

Clara gerir fyrirtækjum kleift að fá innsýn inn í hug notenda tölvuleikja með því að fara sjálfvirkt yfir þá umræðu sem á sér stað milli tölvuleikjanotenda, hvort sem er meðan á leik stendur eða á spjallrásum á Netinu. Clara kerfið notar flókna gervigreind sem skilur samhengið í umræðunni milli tugþúsunda notenda og milljóna spjallþráða. Með því er hægt að gefa leikjaframleiðendum t.d. skilning á hvað er að fæla notendur frá leiknum, af hverju þeir eru ekki að kaupa áskrift eftir reynslutíma og svo framvegis. "Þegar fyrirtæki er með fleiri hundruð þúsund notendur eða jafnvel milljónir getur nokkurra prósenta minnkun á brottfalli verið gríðarlega miklir peningar." segir Gunnar ennfremur.

Leikjaiðnaðurinn veltir gríðarlegum upphæðum og er stærri en kvikmyndaiðnaðurinn á heimsvísu. Þetta er því gríðarlega stór markaður að sögn Gunnars og enn sem komið er er engin samkeppni í þeirri þjónustu sem Clara veitir.

Annað sem kom fram á ráðstefnunni er að á samdráttartímum eins og þessum virðist áhugi á tölvuleikjum aukast og þá sérstaklega leikjum sem eru seldir yfir Internetið og seldir í áskrift, eins og Eve Online.

Einnig voru kynntar nýjungar og framtíðarsýn á leikjabransann þar sem meðal annars var fléttað saman leikföngum og tölvuleik þar sem börn og unglingur léku sér samtímis með leikfang heima hjá sér sem einnig var hluti af tölvuleik segir í tilkynningu.

Um Clara:

Hugmyndin að Clara fæddist fyrir tveimur árum hjá fjórum vinum í Háskóla Íslands. Síðan þá hefur fyrirtækið vaxið og starfa nú 12 manns hjá fyrirtækinu sem er að vinna fyrir nokkur af stærstu fyrirtækjum landsins.

Clara fylgist með umræðunni á meðan hún er að gerast, hvort sem er í bloggi, á fréttasvæðum eða öðrum vettvangi þar sem neytendur getur tjáð sig og haft skoðanaskipti á Internetinu. Þetta er gert sjálfvirkt og á rauntíma með aðstoð gervigreindar. Þannig hjálpar Clara fyrirtækjum við almannatengsl, þróa beittara markaðsstarf og vöruþróun með því að öðlast dýpri innsýn inn í almenningsálitið, hvernig það þróast og hvað það er sem hefur áhrif.

Árið 2008 fékk Clara myndarlegan 3 ára styrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís.