Jeremy Clarkson, Richard Hammond og James May, fyrrum stjórnendur sjónvarpsþáttarins Top Gear, hafa samið við netrisann Amazon um framleiðslu nýrra sjónvarpsþátta, samkvæmt frétt BBC News .

Samningurinn við þríeykið felur í sér gerð þriggja sjónvarpssería af nýjum bílaþáttum sem frumsýndir verða á streymiþjónustu Amazon á næsta ári. Ekki er búið að tilkynna hvert nafn þessa nýja sjónvarpsþáttar verður, en búast má við að hann verði með svipuðu sniði og forverinn.

Ekki er langt síðan 22. þáttaröðin af Top Gear var skyndilega tekin úr umferð eftir að sjö af níu þáttum seríunnar höfðu farið í loftið vegna líkamsárásar Clarkson gegn framleiðanda þáttarins á tökustað. Clarkson var í kjölfarið rekinn frá fyrirtækinu, og yfirgáfu Hammon og May sjónvarpsstöðina eftir að samningar þeirra runnu út í apríl.